Frumvarp um Menntasjóð námsmanna verður brátt afgreitt á Alþingi. Stúdentar eru með þrjár grundvallarkröfur að breytingum á frumvarpinu. Kröfurnar snúast um sanngjörn framfræslulán, styrkjakerfi að norskri fyrirmynd og lægri vexti, n.t.t. með lækkun vaxtaþaks og afnámi vaxtaálags. Hér að neðan má finna ítarlegri upplýsingar um kröfurnar.

Stúdentar hafa í um tvö ár látið sig endurskoðun laga á Menntasjóði námsmanna varða og m.a. gefið út ítarlegar kröfur stúdenta vegna endurskoðunar á lögunum. Fyrir ári síðan hófu LÍS og aðildarfélög okkar herferð vegna endurskoðunarinnar og bar hún yfirskriftina: Háskólamenntun í hættu. Tilgangur herferðarinnar var að vekja athygli á vanköntum námslánakerfisins og afleiðingum þeirra, fyrir stúdenta, háskólamenntaða og samfélagið í heild. Það eru því vonbrigði, eftir langan aðdraganda, hversu skammt frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi gengur og sér ekki fyrir mikilli kjarabót fyrir stúdenta miðað við núverandi mynd þess. Við ítrekum því að Háskólamenntun er ENN í hættu og mikilvægt er að grípa tækifærið nú þegar frumvarp ráðherra liggur fyrir til þess að gera breytingar sem munu raunverulega bæta kjör stúdenta og stuðla að eflingu þekkingarsamfélags á Íslandi. Í ljósi yfirgripsmikilla athugasemda frá hagaðilum og þeirra vankanta sem reifaðir eru í skýrslu ráðherra um endurskoðun á Menntasjóðnum er ljóst að tilefni er til viðameiri breytinga og furða samtökin sig á takmörkuðu umfangi þeirra aðgerða sem boðaðar eru í frumvarpinu. Þær breytingar sem eru lagðar til duga hvergi nærri til við að skapa heilbrigt stuðningskerfi fyrir stúdenta.

Við höfum því lagt af stað að nýju í herferð undir yfirskriftinni: Háskólamenntun ENN í hættu. Markmiðið er að þrýsta á stjórnvöld og þingheim að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpi um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Hér að neðan má nálgast þrjár grundvallarkröfur stúdenta um breytingar á frumvarpinu.

Heildarkröfur stúdenta varðandi námslánakerfið má finna á undirsíðum þessarar síðu. LÍS árétta að frá fyrri heildarkröfum sínum um námslánakerfið hviki þau ekki en hér fyrir neðan verður greint frá tillögum stúdenta að breytingum á fyrirliggjandi frumvarpi sem raunsætt væri að hrinda í framkvæmd umsvifalaust.

Styrkjakerfi að norskri fyrirmynd

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um Menntasjóð námsmanna kemur fram að við val á aðferð við styrkveitingu hafi verið horft til norska námslánakerfisins. Stúdentar hafa bent á að enn þurfi að gera töluverðar breytingar á lögum um Menntasjóðinn svo hið íslenska kerfi standist samanburð við hið norska. 

Lántakar hér á landi þurfa að ljúka námi á réttum tíma til að eiga rétt á 30% niðurfellingu höfuðstóls láns síns við námslok. Í Noregi hljóta lántakar hins vegar 25% niðurfellingu á höfuðstól láns síns í lok hverrar annar, auk þess sem lántakar eiga rétt á 15% niðurfellingu til viðbótar við námslok, óháð því hvort þeir ljúki námi á réttum tíma eða ekki.

Stúdentar leggja áherslu á að við styrkveitingu sé horft sé til jafnréttissjónarmiða í víðum skilningi svo að fyrirkomulag niðurfellingar komi til móts við fjölbreyttan hóp stúdenta. Markmið núverandi styrkjakerfis er að skapa hvata fyrir háskólanema að ljúka námi á tilsettum tíma. Mikilvægt er að litið sé til samsetningu þess hóps sem nær einhverra hluta vegna ekki að ljúka námi á réttum tíma en fjöldi meðlima þessa hóps er eflaust í viðkvæmari stöðu en aðrir, til dæmis þau sem búa við fátækt, þau sem glíma við veikindi, einstæðir foreldrar og svo framvegis.

Vextir á námslánum aldrei verið hærri

Vaxtakjör á námslánum hér á landi hafa stórversnað með innleiðingu laga um Menntasjóð námsmanna. Lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru verðtryggð og báru 1% fasta vexti þar til nýverið, þegar þeir voru lækkaðir niður í 0,4%. Vextir á lánum frá Menntasjóði námsmanna eru hins vegar breytilegir og geta orðið allt að 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. 

Til margra mánaða hafa vextir á námsmlánum frá Menntasjóði námsmanna staðið í hámarki sínu. Það er ljóst að vaxtaþak sem er sett of hátt þjónar ekki tilgangi sínum og veitir ekki raunverulega vernd. Því er nauðsynlegt að lækka vaxtaþakið.

Einnig er réttlætismál að afnema vaxtaálag vegna væntra affalla. Ríkissjóður stóð undir affalli námslána þangað til nýlega og er réttast að taka þá byrði af námsmönnum og setja hana á ríkissjóð að nýju. Það er ekki réttlætanlegt að stúdentar beri einir áhættu af námslánakerfinu enda er það íslenskt samfélag í heild sinni sem nýtur ágóðans af háskólamenntun.

Framfærslulán eiga að duga fyrir framfærslu

Eftir sem áður undirstrika stúdentar mikilvægi þess að framfærslulán nægi stúdentum til að standa straum af almennum framfærslukostnaði hér á landi. Ljóst er að lág framfærsla skerðir aðgengi að menntun og er ein helsta ástæða þess að íslenskir stúdentar vinna einna mest Evrópuþjóða með námi. Þar að auki býr fyrirkomulag frítekjumarksins til vítahring þar sem stúdentar neyðast til að vinna meira til geta framfleytt sér, þrátt fyrir að vera á framfærslulánum, en við það skerðast námslánin svo þeir þurfa að vinna enn meira.

Árum saman hefur stúdentahreyfingin barist fyrir fullnægjandi framfærslulánum. Lánsupphæðir eru ákveðnar í úthlutunarreglum hvers árs og fellur það í skaut ráðherra að ákveða þær. Það er ekkert í lögunum sem skyldar ráðherra til að hækka upphæðir námslána á milli ára. Landssamtök íslenskra stúdenta krefjast þess að námslán dugi raunverulega til framfærslu og taka þarf tillit til verðlagsbreytinga, þróunar leiguverðs og gengisbreytinga.

Þá þarf að gera breytingar á skilyrðum fyrir framfærslulán og ítreka LÍS mikilvægi þess að krafa um lágmarksnámsframvindu verði lækkuð í lögum. Stúdentar á Íslandi þurfa að vera í að minnsta kosti um 75% námi til þess að eiga yfir höfuð rétt á námslánum. Mörg námskeið eru fleiri en 8 ECTS-einingar (26% nám) og þarf því lítið út af að bregða til þess að stúdent missi allan rétt sinn á námslánum. Til samanburðar er meðalnámsframvinda stúdenta við Háskóla Íslands 60% og því ljóst að stór hluti íslenskra stúdenta uppfyllir ekki kröfur um lágmarksnámsframvindu. Hjá hinum norska lánasjóði, sem er fyrirmynd Menntasjóðs námsmanna, fá stúdentar lán fyrir einingum sem þeir þreyta óháð því hvort þeir standist námsmat. Þá skal taka fram að 25% niðurfelling á höfuðstól láns sem fjallað er um í umfjöllun um styrkjakerfið fæst þó einungis fyrir þær einingar sem eru þreyttar og þar með innbyggður hvati fyrir því að ljúka öllum námskeiðum. Með þessu fyrirkomulagi má draga úr fjárhagsáhyggjum stúdenta og þar með stuðla að aukinni vellíðan. Sömuleiðis dregur þessi leið úr umsýslukostnaði hjá Menntasjóði námsmanna en í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 60/2020 kemur fram að umsýsla hjá Menntasjóðnum gæti aukist vegna innheimtu hjá þeim sem ekki ná tilskildri námsframvindu og þurfa að greiða ofgreidd námslán til baka. 

Stjórnvöld í dauðafæri

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Á síðastliðnum árum hefur fjöldi lántaka hjá Menntasjóðnum þó hríðfallið. Skólaárið 2009-2010 tóku 12.393 háskólanemar námslán en tíu árum síðar voru þeir orðnir 4.979. Þessar tölur vekja upp mikilvægar spurningar um aðgengi að háskólamenntun í íslensku samfélagi. 

Í þessu samhengi er vert að nefna að hér á landi hafa töluvert færri lokið háskólamenntun en í samanburðarlöndum okkar. Í nýútgefinni skýrslu frá OECD kemur fram að 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. Niðurstöðurnar verður að taka alvarlega, sér í lagi í samhengi við sílækkandi aðsókn í Menntasjóð námsmanna. 

Samanburðurinn knýr fram spurningar um hvaða hópar það eru sem mennta sig og enn mikilvægara: fyrir hverja er í boði að mennta sig? Stúdentar hafa bent á vankanta námslánakerfisins í mörg ár og nú bendir allt til þess að gallar Menntasjóðsins bitni ekki aðeins á háskólanemum heldur á menntunarstigi þjóðarinnar og það er kominn tími til að stjórnvöld hlusti á kröfur stúdenta.

Stjórnvöld hafa verið í dauðafæri til að laga námslánakerfið vegna lögbundinnar endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Í ljósi þess að ekki er kveðið á um reglulega endurskoðun þessara laga er ljóst að endurskoðun þessi veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi. 

Er það vilji stúdenta að þetta tækifæri verði nýtt til hins ítrasta og að kerfið í heild sinni verði tekið til ítarlegrar skoðunar. Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms, óháð efnahagi eða stöðu að öðru leiti. Þörf er á mikilli vinnu og talsverðum breytingum á lögum sjóðsins til þess að þetta hlutverk sé uppfyllt. 

Við skorum á stjórnvöld og þingheim að nýta tækifærið og gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi. Stúdentar geta ekki beðið lengur eftir aðgerðum!